Það má alltaf finna ljós í myrkri

Thursday, May 17, 2007

Pæling um fátækt

Allir eru mikilvægir. Allir skipta máli. Þú, ég og allir hinir. Bæði ríkir, fátækir, litlir, stórir, feitir og grannir. Fátækt og götufólk er eitthvað sem er ofarlega í huga okkar. Hvar er stoltið? Hvar er vonin og hvar er sjálfsbjargarviðleitnin? Hversu langt er maður leiddur þegar maður sest á götuna og biður um pening. Er þetta nauðsinlegt?

Við rákumst á nokkrar tegundir af fátækt í Osló. En spurningin er, er það allt fátækt?

Maður lá sofandi á götunni í nýlegum bláum gallabuxum, snyrtilegum jakka, merkjaskóm og með íþróttabakpoka. Hann var ekki sóðalegur. Bara eins og ég og þú. Heilbrigður virtist hann en reyndi að bera sig illa.

Annarstaðar var eldri kona í rifnum og mjög sjúskuðum fötum ef föt mætti kalla. Þarna sat hún með allar sínar eigur á litlum vagni. Hún var svo skítug, svo vannærð og virtist eiga svo óendanlega erfitt. Maður sá að þetta var ekta. Svona á enginn að þurfa að búa eða lifa.

Annar maður sat á götuhorni. Jú fátækur var hann vissulega og átti ábyggilega ekki mikið. Þa'ð skondna var að þegar hann sá að einhver leit á hann, þóttist hann þurrka tárin úr andlitinu. Þegar hann tók ekki eftir því að einhver horfði var allt í lagi með hann, hann bara sat og horfði á lífið í kring. Leikinn endurtók hann svo hvað eftir annað.

Auðvitað á maður ekki að dæma eftir útlitinu. Kannski er ekki rétt að dæma eftir því hver er fátækastur og eigi mest erfitt. En maður gerir það samt. Hvers vegna ekki að gera eitthvað í sínum málum? Líklega er þó auðvelt að að segja hvernig maður sjálfur myndi fara að í þessum sporum. Ef maður hefði kannski á einhvern hátt klúðrar broti af lífi sínu sem endaði þannig að við værum á götunni, væri ekki málið að halda samt áfram? Ekki gefast upp og leggjast svo lágt að "sætta sig við" að liggja á götunni í eymd sinni og betla. Því ekki að standa upp og gera sitt besta. Leita sér að vinnu og reyna eftir mesta megni að koma sér af götunni. Það er ekki endilega auðvelt en það er þess virði að reyna ef maður mögulega getur.

Líklega finnst þó mörgum sem enda á götunni þeir vera dæmdir úr leik. Hafa gefist upp á öllu, lífinu og sjálfum sér.

Eitt sinn á götunni - ávallt á götunni? Vonandi ekki.

Helga og Valborg - saman í sveitinni :)